Monday, September 17, 2007

Requiem for a Dream

Um helgina horfði ég á mynd sem mig hafði lengi langað til að sjá. Kvikmyndin Requiem for a Dream olli mér engum vonbrigðum, enda hafði ég heyrt marga góða hluti um hana. Sögur segja að fílefldir menn hafi skælt eins og smákrakkar eftir að hafa séð þessa mynd. Reyndar felldi ég engin tár en var þó ekki langt frá því þegar lokaatriðið var búið. Þessi mynd er ein sú átakanlegasta sem ég hef séð á ævi minni. Darren Aronofsky leikstýrði.














Myndin segir sögu fjögurra fíkla í Brooklyn. Sara Goldfarb er einstæð móðir og sjónvarpsfíkill sem verður háð amfetamíni sem hún tekur inn til að grennast, samkvæmt læknisráði. Sonur hennar Harry, kærasta hans, Marion og vinur þeirra, Tyrone eru öll háð ýmsum efnum, aðallega heróíni en þó sjást þau snorta kókaín og reykja maríjúana í myndinni. Requiem for a Dream er ekki þessi týpíska dópmynd, eins og t.d. Trainspotting. Í Trainspotting eru dópistarnir pínu kúl og dópið er nokkuð nett á köflum þrátt fyrir að skemma allt í endann. Í Requiem for a Dream er nákvæmlega ekkert töff við dópið. Það dregur aðalpersónurnar hægt og bítandi ofan í svaðið og eyðileggur líf þeirra að lokum. Aronofsky tekst að skapa ótrúlega sérstakt andrúmsloft sem er mjög mikilvæg þar sem atburðarrásin í myndinni er frekar hæg. Það mætti kalla myndina atmo-mynd þar sem andrúmsloftið vegur jafnþungt, ef ekki þyngra, en sjálf atburðarrásin.

Tónlistin spilar stórt hlutverk í myndinni og sándtrakkið er satt að segja eitt það besta sem ég hef heyrt. Stefið sem er spilað nokkrum sinnum í gegnum myndina er ótrúlega grípandi og ýtir undir dramatískt andrúmsloftið. Í lokaatriðinu hrífur tónlistin svo rosalega að maður fær gæsahúð frá hvirfli til ilja.

Ég hika ekki við að gefa Requiem for a Dream fimm stjörnur. Óhefðbundin mynd sem skilur eftir hafsjó tilfinninga hjá áhorfanda, að því gefnu að viðkomandi sé tilfinningavera. Myndin ætti að vera sýnd í öllum forvarnarfræðslum.

Arnar

PS: Ég skrifa seinna um The Seven Samurai. Nennti ekki að byrja að horfa á hana um daginn.

2 comments:

Siggi Palli said...

Tek undir það. Rosaleg mynd. Ég fór á hana í bíó á sínum tíma og mér var óglatt í marga tíma á eftir og ég gat ekki sofið. Það er óhætt að segja að hún hafi áhrif...

Jón said...

ekki nógu góð fyrir topp 10?