
Myndin er Disney-söngvamynd (ég hata allar aðrar söngvamyndir) frá árinu 1964. Hún segir frá göldróttu fóstrunni Mary Poppins (Julie Andrews) sem kemur svífandi á regnhlíf í London og blæs öllum hinum barnfóstrunum í burtu til að fá starfið sem hinn fýldi og þurri Mr. Banks hafði boðið út. Starfið felst í að passa börnin hans, Jane og Michael, meðan hann telur peninga í banka.
Börnin eru ekki lengi að sjá að Mary Poppins er engin venjuleg fóstra og bindast þau sterkum tilfinningaböndum við hana. Þau lenda í ýmsum ævintýrum með henni og Bert (David Tomlinson).
Bert er vinur Mary og hugsanlega hallærislegasti náungi kvikmyndasögunnar. Ég man samt eftir því að ég gjörsamlega elskaði þennan mann og leit á hann sem æðri veru vegna nettleika hans þegar ég var lítill. Mig langaði að vera sótari alveg eins og Berti, en draumar mínir hrundu þegar foreldra mínur tjáðu mér að starf sótara fælist ekki í því að skjóta flugeldum og dansa upp á þaki á nóttunni.
Eftir að hafa lent í ýmsum ævintýrum, t.d. að hoppa inn í götumálverk og sprella í teiknuðum heimi þess og að drekka te heima hjá hlátursjúkum frænda í lausu lofti hverfur Mary Poppins á braut. Hún svífur í burtu á regnhlífinni sinni og skilur börnin (mig meðtalin) og Bert eftir í tárum.
Epísk saga af vináttu.
Ég ímynda mér að Mary Poppins sé merkileg í kvikmyndasögulegu samhengi. Sá hluti myndarinnar sem gerist í teiknaða heiminum er frekar nettur og ég ímynda mér að hann hafi þótt stórmagnaður á sínum tíma.

Eitt veit ég, Mary Poppins fer aftur í tækið við tækifæri.
Arnar
No comments:
Post a Comment