Monday, September 24, 2007

Veðramót

Jæja, betra er seint en aldrei. Þar sem ég komst ekki með í bíó seinustu helgi þá skellti ég mér í gærkvöldi á nýja íslenska kvikmynd, Veðramót. Guðný Halldórsdóttir skrifaði handritið og leikstýrði.


Veðramót var töluvert betri en síðasta íslenska mynd sem ég sá, sú var Astrópía. Myndin gerist á hippatímabilinu á Íslandi og segir frá þremur ungmennum sem ráða sig sem forstöðufólk á Veðramótum, betrunarheimili fyrir vandræðaunglinga. Á heimilinu dvelja nokkrir unglingar, strákar og stelpur sem hafa öll sína sögu að segja.

Ég verð að segja að myndin kom mér á óvart á fleiri en eina vegu. Það sem kom mér hvað mest á óvart var það að söguþráðurinn var allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Ég hafði séð fyrir mér einhvern gamlan bónda eða prest sem forstöðumann, sem misnotaði krakkana og barði þá. En svo var víðs fjarri. Í sjálfu sér er Veðramót alls ekki svo slæmur staður sem slíkur. Það sem er meira fókuserað á er það að krakkar sem komu af slæmum heimilum og höfðu verið misnotuð af foreldrum sínum hafi einfaldlega verið send í sveit og farið að moka flór undir yfirumsjón ögn eldri einstaklinga sem höfðu ekki hundsvit á ummönnunarstörfum. Í raun var krökkunum refsað fyrir það sem þau höfðu lent í. Stelpurnar á Veðramótum höfðu verið misnotaðar að feðrum og stjúpfeðrum, strákarnir komu af drykkfelldum heimilum eða einhverju enn verra.

Fyrst um sinn varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með þetta, ég hafði ímyndað mér ögn meira krassandi söguþráð, ef svo má að orði komast. En eftir að hafa hugsað málið eftir myndina komst ég að þveröfugri niðurstöðu. Í fyrsta lagi hefði það verið svo ótrúlega týpískt ef það hefði verið einhver „vondur kall“ í myndinni. Þá hefði þungamiðjan verið sú að maður væri alltaf hræddur um hvað forstöðumaðurinn gerði og það hefði auðveldlega geta snúist upp í eitthvað sorgarklám eða drama overkill. Í öðru lagi hefði það einnig dregið athyglina frá aðalatriðinu, þ.e. þeim hugsunarhætti samfélagsins að óhamingjusamir og afvegaleiddir krakkar þyrftu bara að kynnast alvöru sveitavinnu til þess að geta ratað aftur yfir á rétta braut.

Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar myndir koma manni svona á óvart. Það er gaman að þurfa að gera upp við sig myndir eftir að maður sér þær, að þær láti mann velta vöngum.

En að tæknilegum atriðum. Þar finnst mér Veðramót aftur hafa vinningin af helsta keppinaut sínum, Astrópíu. Flestar persónurnar eru unglingar og þar af leiðandi er leikarahópurinn mestmegnis skipaður ungmennum. Og ég verð að segja að leikurinn var alveg til fyrirmyndar hjá þessum ungu og tiltölulega ósjóuðu leikurum. Eldri leikararnir stóðu sig líka með prýði.
Myndatakan þótti mér einnig mjög vel unnin. Ekki það að ég viti eitthvað svaka mikið um angles og eitthvað þannig, en það var einhver hlýlegur og retro blær yfir öllu saman. En það er að sjálfsögðu ljósafólkinu og leikmyndahönnuðunum að þakka líka.

Það eina sem mér fannst ekki framúrskarandi við myndina var tónlistin. Ég er alls ekki að segja að hún hafi verið eitthvað léleg eða skemmt fyrir, en mér þótti vanta atriðin þar sem tónlistin einhvern veginn ýtir öllu sem er að gerast upp á eitthvað nýtt level, þegar tónlistin virkilega „gerir atriðið“.

Í heildina litið finnst mér Veðramót vera virkilega góð mynd, klárlega ein af bestu íslensku myndum sem ég hef séð. Það var líka ótrúlega gaman að horfa á hana eftir að hafa fengið Guðnýju Halldórsdóttur í tíma til okkar. Persónurnar voru allar trúverðugar og komu þessari átakanlegu sögu vel til skila. Ég held ég sé bara sammála flestum gagnrýnendum og smelli fjórum stjörnum á Veðramót.

No comments: