Wednesday, September 26, 2007

Græna ljósið - Cocaine Cowboys

Þegar bíódagar Græna ljóssins voru haldnir um daginn skelltum við frúin okkur á eitt klippikort saman. Ég sá fjórar myndir og þær voru allar nokkuð skemmtilegar. Ég mundi þó aðeins segja að ein þeirra hafi borið af, þess vegna ætla ég að blogga um hana síðast.

Fyrsta myndin sem ég smellti mér á var myndin Cocaine Cowboys, Billy Corben leikstýrði. Myndin er heimildarmynd um dópinnflutning og allt sem skapaðist í kring
um hann í Miami á níunda áratug seinustu aldar. Í myndinni er sagan rakin frá því að ferlið hófst og þangað til því „lauk“, ef svo má að orði komast.

Myndin er að mestu leyti byggð á viðtölum við glæpamenn, lögreglumenn og aðra sem voru viðriðnir fíkniefnaheiminn. Það var ótrúlega gaman að sjá gamla eiturlyfjakónga láta allt flakka en þó var það einn helsti galli myndarinnar á sama tíma. Því myndin var ekki stutt, 116 mínútur, og hún var satt að segja frekar þreytandi á köflum. Til dæmis þegar einhver gamall, skemmdur og þoglumæltur handrukkari tók sér góðar 10 mínútur í að lýsa einhverju missioni sem hann var sendur í sem endaði í einhverri vitleysu.

Það sem mér fannst eftirminnilegast var það hversu agndofa ég var að sjá hversu stórt þetta varð. Eftir að hafa séð Scarface vissi maður að Miami á þessum árum var frekar fucked up staður en samkvæmt þessari heimildarmynd var þetta milljón sinnum stærra en ég hafði nokkurn tímann getað ímyndað mér. Í orðsins fyllstu merkingu voru lögreglumenn að flytja tugi kílóa í skottinu á löggubílunum yfir í banka sem eingöngu innihéldu dóppeninga. Í lokin var síðan gert eitthvað risa drugbust og þá fóru ógeðslega margir bankar, bílaumboð, spilavíti, skartgripaverslanir á hausinn í kjölfarið.

Í heildina var myndin helvíti góð. Eins og ég sagði áður varð hún kannski örlítið þreytandi á köflum en ég gekk sáttur út úr bíósal, fullur undrunar. Alltaf gaman þegar heimildarmyndir gera mann orðlausan.

1 comment:

Siggi Palli said...

Sammála. Rosaleg saga. Ég held að einn af aðalgaurunum sé grunnurinn að persónu Johnny Depp í Blow.