Monday, September 3, 2007

Astrópía

Jæja, um daginn fór ég á kvikmyndina Astrópíu, nýja íslenska mynd eftir Gunnar Björn Guðmundsson. Í sannleika sagt var ég ekkert yfir mig hrifinn af myndinni þó hún hafi verið
ágætis skemmtun og innihaldið mjög töff pælingar. Til að byrja með þótti mér aðalleikonan alls ekki vera nógu sannfærandi og hinir leikararnir gripu mig ekkert sérstaklega heldur. Mér þótti Davíð Þór eiginlega standa sig best.
Svo ég haldi aðeins áfram á neikvæðu nótunum þá fannst mér fantasíuatriðin ekki gera jafnmikið fyrir myndina og þau hefðu getað gert. Frábær hugmynd sem mér hefði fundist þurfa að útfæra betur. Lokaatriðið þótti mér bara frekar asnalegt og ég hefði nú eiginlega frekar viljað sjá það í „real world“ hluta myndarinnar. Ég geri mér þó vel grein fyrir að Gunnar hafði ekki allar milljónirnar sem þarf til að gera LOTR-style bardagasenur, og ég viðurkenni fúslega að ég er algjör sucker fyrir epískum high budget bardagaatriðum. Auðveldlega blekktur af Hollywood í þeim efnum.

En að því góða. Það sem mér þótti eiginlega flottast við myndina var þegar raunveruleikaskotin samtvinnuðust við teiknimyndasögur. Það þótti mér virkilega skemmtileg og vel útfærð pæling sem gekk alveg hundrað prósent upp. Einnig skellti ég virkilega uppúr þegar gæjarnir voru böstaðir við að LARP-a í Öskjuhlíðinni. Ég hef ekki hugsað um margt annað en LARP síðan þá.

Í heildina litið fannst mér Astrópía ágæt mynd. Ég passa mig að dæma unga og fátæka leikstjóra á Íslandi ekki oft hart en ég velti því líka fyrir mér hversu mikið maður getur fyrirgefið leikstjóra bara því hann er íslenskur. Oft finnst mér fólk gefa myndum einhverja forgjöf bara því þær eru íslenskar. En það er efni í sér færslu. Það sem mér fannst einna mest gagnrýnivert var það að fyrir mér var myndin dáldið svona „going nowhere“. Ekki nógu fyndin til að vera grínmynd, ekki nógu epísk til að vera ævintýramynd og ekki nógu dramatísk til að vera alvöru dramamynd. Ef til vill var það pæling leikstjórans að gera einhvers konar samsuðu, en hún virkaði alla vega ekki nógu vel á mig. Tæplega þriggja stjörnu mynd að mínu mati.

Arnar

3 comments:

Björn Brynjúlfur said...

Þetta er alveg satt með samsuðuna, maður vissi aldrei almennilega hvers konar mynd leikstjórinn vildi að þetta væri. Miklu meiri húmor og minni "rómantík" hefði hjálpað þessari mynd mikið.

Bóbó said...

Þú meinar meiri húmor og minni lélegur leikur, það var sársaukafullt að horfa á rómantíska tilburði Ragnhildar og Snorra. Meiri aularnir

Siggi Palli said...

Fínar pælingar.
Ég er sammála að Ragnhildur var veikasti hlekkurinn í leikarahópnum. Mér fannst Snorri aftur á móti mjög góður...
Varðandi lokaatriðið, þá sé ég ekki alveg hvernig hefði verið hægt að útfæra það í raunveruleika myndarinnar. Raunar fannst mér það ágætis brandari, því á meðan á því stendur veltir maður fyrir sér hver hliðstæða þessa fantasíubardaga sé í raunveruleikanum, því maður heldur að það þau hljóti að vera að sigrast á vondu köllunum á einhvern nördalegan hátt, en svo er gefið í skyn að það hafi jafnvel verið meiri hasar í raunveruleikanum (bíll á hvolfi sem kviknað er í og fleiri ummerki bardaga).
En vissulega er myndin langt í frá fullkomin.