Wednesday, November 28, 2007

Zodiac (2007)

Kvikmyndin Zodiac fór fram hjá fæstum þegar hún kom í bíó hér á landi. Ég var samt einn af þeim fáu sem sá hana aldrei. Um daginn ákvað ég þó að kíkja á hana því hún hafði fengið svo brjálaða dóma og var talað um hana sem bestu spennumynd sem hefur verið gerð í mörg ár. Enda var ekki af öðru að búast frá leikstjóranum sem leikstýrði Fight Club, David Fincher.

Ég settist því niður fyrir framan skjáinn, fullur eftirvæntingar. Ég verð þó að viðurkenna að ég varð fyrir örlitlum vonbrigðum með þessa blessuðu mynd. Ég er alls ekki að segja að hún hafi verið léleg, en það var bara búið að hæpa hana svo ógeðslega mikið upp.

Myndin byrjar mjög vel, myndatakan og atmóið er alveg ógeðslega töff og ég sá fram á frábæra mynd fyrsta hálftímann eða svo. En mér fannst myndin svo leysast svolítið upp þegar leið á hana. Ég náði ekki að halda athyglinni út alla myndina. Morðinginn náðist aldrei en myndin skilur eftir sig „prime suspect“. Aðalpointið með myndinni var eiginlega hvernig Robert Graysmith (Jake Gyllenhaal) varð obsessed og missti vitið út af þessum blessaða raðmorðingja.

Eins og ég segi, myndin var mjög töff og hún lofaði góðu í byrjun. En myndin endaði dáldið í lausu lofti og það var pæling sem mér fannst ekki virka nógu vel á mig. Kannski var það vegna þess að ég hafði gert mér hugmynd um mynd sem var jafnsjúk og Se7en eða eitthvað.

Ég skelli þremur stjörnum á Zodiac. Kannski þremur og hálfri.





Tuesday, November 27, 2007

Dexter

Langaði bara að bomba inn einni örfærslu um sjónvarpsþættina um Dexter. Ég er ekki að tala um Dexter's Laboratory heldur skemmtilega og góða Dexter þáttinn sem er ekki ógeðslega leiðinleg teiknimynd á Cartoon Network.

Ég ætla svo sem ekkert að fara í einhverja djúpa greiningu á þættinum. Þessi færsla er hugsuð sem virðingavottur fyrir þáttinn sem breytti sýn minni á sjónvarpsþætti yfir höfuð.

Þannig er mál með vexti að ég var lengi vel mjög fordómafullur í garð sjónvarpsþátta. Á seinustu misserum hafa alls konar þættir verið að koma sterkir inn og fólk virðist verða hooked á sjónvarpsþáttum í mun meiri mæli en áður þekktist. Þetta gat ég aldrei skilið.

Þangað til ég varð mér út um 1. seríu af Dexter. Þá varð ekki aftur snúið. Þá gerði ég mér grein fyrir því að þættir gætu alveg verið á sama gæðaplani og góðar bíómyndir.

Nú eru komnir 9 þættir í 2. seríu. Þetta er bara að verða betra og betra.



Respect.

Topp 10 listinn, 1/4

Jæja. Ég hef ákveðið fyrirkomulagið á topp 10 listanum mínum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég get ómögulega raðað myndunum í röð, en ég er samt búinn að ákveða hver er í 1. sæti. Ég er búinn að blogga um Requiem for a Dream nú þegar, þannig að ég mun hafa þetta þannig að núna blogga ég um þrjár, svo þrjár, svo tvær og svo kemur eitt ofurblogg um myndina sem ég tel vera bestu mynd sem ég hef séð.

En að öðru. Fyrsta mynd á dagskrá:

Þegar ég heyrði fyrst um þessa mynd þá var ég örlítið efins um hana. Mér fannst pælingin um tvo töframenn að berjast um rosalegasta töfrabragð allra tíma vera hálf tæp. En þegar ég sá leikarana þá fór ég að verða ögn bjartsýnni. Christian Bale og Hugh Jackman eru í aðalhlutverkunum. Þegar ég horfði svo á myndina þá kom hún mér rækilega á óvart.

Christopher Nolan fer hrikalega vel með söguna og er myndinni vel leikstýrt í alla staði. Það sem heillaði mig mest við myndina var hversu ótrúlega vönduð hún var. Góð leikstjórn, góð myndataka, góðir leikarar, skemmtileg saga með ógeðslega töff plotti. Allt sem góð mynd þarf að hafa. Myndin er ein eftirminnilegasta nýja mynd sem ég hef séð lengi, og þess vegna fannst mér hún eiga erindi á topp 10 listann minn.



Næsta mynd á listanum er Rosemary's Baby. Þá mynd ætti varla að þurfa að kynna fyrir nokkrum. Myndinni er leikstýrt af sjálfum Roman Polanski og hin undurfagra Mia Farrow fer með aðalhlutverkið. Myndin er talin vera ein af meistarastykkjum kvikmyndasögunnar og ég get fúslega skrifað undir það.

Það sem myndin skilur eftir fyrir mig er „atmóið“. Myndin fjallar um Rosemary Woodhouse, sem verður ólétt og sjálfur Kölski er faðir barnsins. Myndin er laus við gore og bregðuatriði en það er andrúmsloftið sem gerir hana eins creepy og hún er. Hún er frekar geðveikisleg út í gegn, hvernig allir í kringum Rosemary eru með í plottinu. Hún er í svo hrikalegri aðstöðu í allri myndinni að ég fylltist af einhverjum undarlegum tilfinningum þegar ég horfði á hana. Polanski sýnir vel snilli sína í þessari mynd og tel ég hana eiga fullt erindi á listann minn.



The Shawshank Redemption er mynd byggð á sögu Stephen King. Þar sem ég er forfallinn King aðdáandi þá hitti þessi mynd beint í mark fyrir mig. Myndin segir frá bankamanninum Andy Dufresne, leiknum af Tim Robbins, sem er dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Í fangelsinu nær hann að pota sér í fremstu röð eftirlætisfanga fangelsisyfirvalda og á endanum fer hann að sjá um fjármál fyrir ýmsa starfsmenn fangelsisins. Í lokin strýkur hann úr fangelsinu í gegnum gat sem hann bjó til með pínulitlum hamri, kemur upp um fjársvik fangelsisstjórans og hirðir alla peningana hans.

Myndinni er leikstýrt af Frank Darabont og á hann hrós skilið fyrir góða leikstjórn. Þó finnst mér Stephen King eiga mest kredit skilið fyrir þessa mynd, því það er í rauninni þessi frábæra saga sem gerir myndina að því sem hún er.

Frásagnaraðferð myndarinnar er dálítið skemmtileg. Þrátt fyrir að Andy Dufresne sé aðalpersónan í myndinni þá er vinur hans, Red, leikinn af Morgan Freeman, sögumaður myndarinnar. Áhorfendur sjá inn í huga hans og hann segir söguna af aðalpersónunni.

Þessi frábæra mynd á fullt erindi inn á listann minn. Til gamans má geta að hún er í 2. sæti á imdb.com.

Monday, November 26, 2007

Stuttmyndamaraþonið

7. des nálgast óðfluga. Ég var reyndar búinn að steingleyma að maður ætti að blogga um stuttmyndamaraþonið ógurlega en það gerir ekkert til, myndin er mér enn í fersku minni.

Ég, Ingólfur „Bóbó“ Halldórsson, Árni Þór „Aslan“ Árnason, Ari „Yrja“ Guðjónsson og Jón „Sugarsick“ Benediktsson vorum saman í hóp og eftir miklar vangaveltur varð til kvikmyndin Opinberun Hannesar 2: Í skugga trúar.

Plot outline: Tveir trúboðar ofsækja ungan, latan mann sem þráir ekkert heitar en að fá að vera í friði.

Arnar Már Ólafsson átti leiksigur í þessari mynd og er byrjunaratriðið talið vera eitt það besta í stuttmyndamaraþoninu. Þar má sjá augljós áhrif úr myndinni The Big Lebowski. Það er augljóst að The Dude er kominn til að vera í kvikmyndum, sama hvers lenskar þær kunna að vera.

Myndatakan heppnaðist vel, fyrir utan lýsinguna í lokaatriðinu, og það eyðilagði örlítið fyrir myndinni, því plottið er eitt það sjúkasta sem hefur sést á hvíta tjaldinu. Fyrir utan það var myndataka og klipping hnökralaus með öllu.

Það var samt nett pirrandi að þurfa að klippa og hljóðsetja allt í vélinni sjálfri, en það voru þær takmarkanir sem settar voru. Við hlökkum mikið til þess að fá að klippa í alvöru forriti eftir áramót.

Myndin hlaut lof bekkjarfélaganna og var æðsta vald áfangans, Sigurður Páll Guðbjartsson, svo ánægt með myndinni að hún hlaut 9,5 í einkunn, hæst allra mynda.

Rashomon (1950)

Jæja. Í dag horfðum við á meint meistarastykki Akira Kurosawa, Rashomon. Eftir að hafa keppt æfingakeppni í leiðinlegustu keppni skólans, Ratakúk, þá skelltum við félagarnir okkur upp í J stofu og horfðum á þessa blessuðu mynd. Myndin segir frá þremur gæjum sem sitja saman í skjóli og eru að bíða eftir að storm lægi. Þeir fara að skeggræða morð á Samurai, sem involveraði konu hans og „bandit“. Frásögn hvers og eins er ólík annarri og pointið með myndinni var að fólk hagræddi alltaf sannleikanum sér í hag.

Ég er ef til vill algjör menningaróviti en mér fannst þessi mynd alveg hundleiðinleg. Eins og svo margar gamlar myndir. Mér fannst sagan leiðinleg til að byrja með og ofleikurinn hjá konunni sérstaklega fór í mínar fínustu. Kvikmyndin er eflaust merkileg í kvikmyndasögulegu samhengi en ég held ég sé bara ekki nógu harður kvikmyndanölli til að geta haft gaman af þessu.

Það eina sem ég man eftir sem mér fannst virkilega töff voru skotin þar sem fólkið talaði fyrir rétti. Þar var nett „point of view“ skot og dómarinn virtist ósýnilegur.

Monday, November 5, 2007

Fear and Loathing in Las Vegas (1998)

Kæru samnemendur. Ég hef risið upp frá dauðum. Mættur aftur, ferskari en allt sem ferskt er og tilbúinn að bomba út bloggi annan hvern dag fram að mánaðarlokum.

Hér í dag ætla ég að fjalla um myndina Fear and Loathing in Las Vegas, sem er frá árinu 1998.
Myndinni er leikstýrt af Terry Gilliam og með aðalhlutverk fara Johnny Depp og Benicio Del Toro.


Myndin segir frá Raoul Duke (Depp), meintum fréttaritara og lögfræðingi hans, Dr. Gonzo (Del Toro) og ferðalagi þeirra til Las Vegas. Í þessari mynd, sem er um tveir tímar að lengd, gerist voða lítið fyrir utan það að þeir bakkabræður eru að vaða uppi í Las Vegas á ofskynjunarlyfjum. Myndin er eiginlega laus við plott og söguþráðurinn er alls ekki krassandi. Þessi mynd er pjúra dópmynd. En hún var góð engu að síður. Leikstjórinn, með hjálp frábærra leikara nær að láta pælinguna sína ganga fullkomlega upp. Þrátt fyrir að myndin sé eitt stórt sýrutripp í orðsins fyllstu merkingu þá nær maður að halda athyglinni og skemmta sér allan tímann.

Í þessari mynd sýnir Johnny Depp okkur að hann er einn besti leikari samtímans. Leikur hans einn og sér væri næg ástæða til að horfa á myndina. Hann sekkur sér svo djúpt ofan í karakter sinn og nær að leika gæja á öllum eiturlyfjum sem til eru á ótrúlega sannfærandi hátt.

Ég held ég gefi myndinni 3,5 stjörnur, og eigna Depp meirihluta þeirra.

PS: Ég er kominn með imdb-linka á titla, leikstjóra og leikara.