Friday, December 7, 2007

Topp 10 listinn, 4/4

Myndin sem endar í fyrsta sæti hjá mér er The Green Mile.




Myndin er byggð á sögu Stephen King, sem er einn af mínum uppáhalds rithöfundum (þrátt fyrir að hafa gert mikið af súru dóti). Góðu verkin hans eru að mínu mati einhver þau mögnuðustu sem ég hef lesið. Sem dæmi má nefna The Shining, sem er talin vera eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Frank Darabont leikstýrði myndinni, en hann leikstýrði einmitt líka The Shawshank Redemption, sem er önnur fangelsismynd byggða á bók Stepeh King.

Ég man þegar ég sá The Green Mile. Það er ekki mjög langt síðan, bara eitt og hálft ár eða eitthvað. Mig hafði alltaf langað til að sjá hana og eitt kvöldið var ég að fletta í Morgunblaðinu og sá að hún var í sýnd á RÚV það kvöld. Ég hlammaði mér fyrir framan tækið og upplifði magnaðasta bíó sem ég hef á ævi minni orðið vitni af. Ég gat ekki sofnað um nóttina og myndin var föst í hausnum á mér í margar vikur á eftir. Ég minnist hennar alltaf af og til. Þegar ég horfði á hana aftur um daginn fékk ég ósjaldan gæsahúð, og það gerist ekki oft yfir myndum hjá mér.

Aðalhlutverkið fer Tom Hanks með og leikur hann fangavörðinn Paul Edgecomb sem er hæstráðandi á dauðadeild í bandarísku fangelsi. Með honum starfa Brutus Howell og óþokkinn Percy Wetmore, ásamt nokkrum öðrum. Einn daginn kemur risastór blökkumaður, John Coffey,
og er leiddur inn í klefa. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og morð á tveimur stelpum. Fljótlega kemur í ljós að John Coffey er ekki allur þar sem hann er séður. Hann er einfeldningur sem hefur þann mátt að geta læknað og lífgað við menn og dýr. Í myndinni er mikið um átök og drama. Percy Wetmore er maður sem maður fer virkilega að hata þegar líður á myndina, og eitt óhugnalegasta atriði sem ég hef séð er þegar hann nær sér niðri á Eduard Delacroix.

Ég hef einnig lesið bókina, og er skemmtilegt að sjá hvernig leikstjóri heldur sér við söguna. Aðeins er örfáum smáatriðum sleppt úr bókinni, ólíkt því sem var t.d. gert við The Shining, þrátt fyrir að hún sé meistarastykki. En Stephen King var ekki sáttur við Kubrick og leikstýrði sinni eigin Shining sem á víst að sökka. Ég hef ekki séð hana.


En The Green Mile er besta mynd sem ég hef séð. Engin mynd hefur setið jafnlengi í mér eftir að hafa horft á hana.

No comments: