Friday, December 7, 2007

Litið um öxl

Jæja, þá er fyrri önn í kvikmyndafræði lokið og mig langar til að drepa á nokkrum atriðum hver varða þessa stórskemmtilegu tíma.

-Ég hef ekki klárað nema 20 færslur í vetur. Ég hef kannski verið örlítið latur að blogga en þó tel ég mig vera með nokkuð vandaðar færslur. Einnig vantar nokkrar „skyldumyndir“ hingað inn og kenni ég því um að ég er alltaf að vinna á miðvikudögum, en framan af horfðum við á myndirnar þá. Til gamans má geta að ég tók aukavakt mánudag einn, en þá var einmitt ákveðið að horfa á myndirnar á mánudögum. Óheppnin eltir mig uppi.

-Eftir að hafa verið í kvikmyndafræði horfi ég á miklu fleiri bíómyndir en ég gerði. Já, ég horfi örugglega á svona 5 myndir í viku, einu sinni horfði ég nánast aldrei á myndir. Ég horfi líka á myndir frá allt öðru sjónarhorni en ég gerði. Núna spái ég virkilega í myndatöku, lýsingu, hljóði, leik og leikstjórn. Og ég spái líka í leikstjórum, hvaða leikstjóri gerði hvaða myndir og hvernig myndir gerir hann o.s.frv.

Það er óhætt að segja að þessi áfangi sé sá skemmtilegast í skólanum í vetur og ég hlakka til að halda áfram eftir jól. Djöfull á ég eftir að horfa á mikið af myndum í jólafríinu.

Topp 10 listinn, 4/4

Myndin sem endar í fyrsta sæti hjá mér er The Green Mile.




Myndin er byggð á sögu Stephen King, sem er einn af mínum uppáhalds rithöfundum (þrátt fyrir að hafa gert mikið af súru dóti). Góðu verkin hans eru að mínu mati einhver þau mögnuðustu sem ég hef lesið. Sem dæmi má nefna The Shining, sem er talin vera eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Frank Darabont leikstýrði myndinni, en hann leikstýrði einmitt líka The Shawshank Redemption, sem er önnur fangelsismynd byggða á bók Stepeh King.

Ég man þegar ég sá The Green Mile. Það er ekki mjög langt síðan, bara eitt og hálft ár eða eitthvað. Mig hafði alltaf langað til að sjá hana og eitt kvöldið var ég að fletta í Morgunblaðinu og sá að hún var í sýnd á RÚV það kvöld. Ég hlammaði mér fyrir framan tækið og upplifði magnaðasta bíó sem ég hef á ævi minni orðið vitni af. Ég gat ekki sofnað um nóttina og myndin var föst í hausnum á mér í margar vikur á eftir. Ég minnist hennar alltaf af og til. Þegar ég horfði á hana aftur um daginn fékk ég ósjaldan gæsahúð, og það gerist ekki oft yfir myndum hjá mér.

Aðalhlutverkið fer Tom Hanks með og leikur hann fangavörðinn Paul Edgecomb sem er hæstráðandi á dauðadeild í bandarísku fangelsi. Með honum starfa Brutus Howell og óþokkinn Percy Wetmore, ásamt nokkrum öðrum. Einn daginn kemur risastór blökkumaður, John Coffey,
og er leiddur inn í klefa. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og morð á tveimur stelpum. Fljótlega kemur í ljós að John Coffey er ekki allur þar sem hann er séður. Hann er einfeldningur sem hefur þann mátt að geta læknað og lífgað við menn og dýr. Í myndinni er mikið um átök og drama. Percy Wetmore er maður sem maður fer virkilega að hata þegar líður á myndina, og eitt óhugnalegasta atriði sem ég hef séð er þegar hann nær sér niðri á Eduard Delacroix.

Ég hef einnig lesið bókina, og er skemmtilegt að sjá hvernig leikstjóri heldur sér við söguna. Aðeins er örfáum smáatriðum sleppt úr bókinni, ólíkt því sem var t.d. gert við The Shining, þrátt fyrir að hún sé meistarastykki. En Stephen King var ekki sáttur við Kubrick og leikstýrði sinni eigin Shining sem á víst að sökka. Ég hef ekki séð hana.


En The Green Mile er besta mynd sem ég hef séð. Engin mynd hefur setið jafnlengi í mér eftir að hafa horft á hana.

Die Hard!

Djöfull er langt síðan maður sá Die Hard myndirnar. Ég horfði á fyrstu þrjár um daginn og varð helvíti hrifinn. Þetta er ekkert verra en í minningunni. Ég hef reyndar ekki séð fjórðu myndina, en hef heyrt misjafna hluti um hana. Mörgum finnst hún vera geðveik, en sumum finnst hún vera hálfslöpp. Ég er eiginlega á því að fyrsta myndin sé sú besta í trílogíunni. Bruce Willis, í hlutverki John McClane, er án efa sá allra harðasti í bransanum. Alltaf þegar hryðjuverkamennirnir hringja í hann og vilja tala um eitthvað upp á líf og dauða, þá er McClane-inn alltaf með einhverja helvítis stæla og útúrsnúninga. Þvílíkur meistari.

Önnur myndin var líka helvíti góð. Söguþráðurinn tók skemmtilegar beygjur og ekki vantaði testósteronið í McClane. Það bar þá stundum á svona „over the top“ súrum atriðum sem voru of asnaleg.

Þriðja myndin er síst, að mínu mati. Samt er hún mjög góð og frábær afþreygin. En Simon var bara einum of súr á köflum fyrir minn smekk.

En ég fór einmitt að spá eftir að hafa horft á þetta, það eru ekki gerðar svona action myndir lengur. Kannski er ég bara uppfullur af nostalgíu en mér finnst dáldið eins og spennumyndir dagsins í dag séu flestar annað hvort á miklu lægri gæðastandardi, eða þá alltof alvarlegar.


Topp 10 listinn, 3/4

Jæja, þá er komið að þeim myndum sem prýða 2. og 3. sætið. Í engri sérstakri röð.


Oldboy (2003)


Leikstjórinn Chan-wook Park sýndi meistaratakta við gerð Oldboy. Þessi mynd er ein sú rosalegasta sem ég hef á ævi minni séð. Myndin er frá Suður-Kóreu og segir frá Oh Dae-Su sem vaknar einn daginn eftir fyllerí í herbergi sem hann hefur aldrei séð áður. Þar er hann læstur inni í 15 ár án þess að hitta aðra manneskju og án útskýringa. Einn daginn vaknar hann svo í tösku upp á húsþaki, hann er frjáls og veit ekkert af hverju. Stuttu síðar fara að berast honum símtöl frá manninum sem fangaði hann og þar Oh-Dae Su að komast að því af hverju hann var læstur inni. Hefst svo gríðarlega spennandi atburðarrás sem endar með plotti, sem ég held að geti fullyrt að sé það rosalegasta sem ég hef séð. Ég veit ekki hvert ég ætlaði þegar það kom í ljós, svo agndofa varð ég.

Eitt það eftirminnilegasta úr myndinni er bardagaatriði þar sem Oh Dae-Su lemur fullt af gaurum í klessu inn á einhverjum gangi. Atriðið er örugglega vel á þriðju mínútu og er tekið upp í einu skoti. Ég horfði á aukaefni um gerð myndarinnar og þar var fjallað um þegar þeir voru að æfa þetta atriði. Það tók ekki stuttan tíma. Þessi mynd er ein af þremur bestu myndum sem ég hef séð, svo mikið er víst.


American History X (1998)


Tony Kaye er leikstjóri sem ekki hefur farið mikið fyrir. Hann á tiltölulega fá verk að baki sér en ein af myndum hans er American History X, sem er ein rosalegasta mynd sem ég hef séð. Myndin segir frá nýnasistahetjunni Derek og litla bróður hans Danny. Faðir þeirra var myrtur af blökkumanni og í kjölfarið greip gamall nýnasisti, Cameron, tækifærið og innrætti Derek með vafasömum hugmyndum. Derek lendir svo í fangelsi fyrir að myrða tvo blökkumenn og meðan hann er í fangelsinu kynnist hann blökkumanni og þeir tveir verða ágætis félagar þegar yfir líkur. Þegar Derek kemur svo út hefur hann sagt skilið við fyrri hugmyndir sínar og berst fyrir því að litli bróðir hans taki þær ekki upp.

Myndin er ótrúlega átakanleg. Ég man þegar ég sá hana fyrst, árið sem hún kom út. Ég fylltist óhug yfir atriðinu þegar gengið ræðst inn í verslun mannaða af innflytjendum. En þessi saga á vel við hvar sem er, hún er sígild og tímalaus. Hún minnir á það að ekki er hægt að dæma fjöldann, heldur einstaklingana. Vonandi að fólkið í ÍFÍ horfi á þessa mynd og hugsi.

Wednesday, December 5, 2007

Hvað er málið með...

Family Guy?!!!?! Djöfull er þetta að verða lélegt!

Alveg efni í heila færslu!

Tuesday, December 4, 2007

Topp 10 listinn, 2/4

Jæja, þá er komið að öðrum hluta af topp 10 listanum mínum.

Fyrsta mynd á dagskrá er...

Das Leben der Anderes (2006)


Myndin Das Leben der Anderes, eða The Lives of Others, kom mér rækilega á óvart. Ein af þessum bíóferðum þar sem maður spáir ekkert í hverju maður er að fara að sjá, en svo kemur einhver bomba. Ég fékk nefnilega frímiða á þessa mynd, minnir að það hafi verið á vegum Græna ljóssins. Ég tók frímiðanum fagnandi og spáði ekkert í því hvaða mynd var um að ræða.

Eins og titillinn gefur til kynna er myndin þýsk. Henni er leikstýrt af Florian Henckel von Donnersmarck. Myndin gerist í Austur-Þýskalandi, nokkrum árum fyrir fall Berlínarmúrsins, og hún fjallar um mann í leyniþjónustunni sem vinnur meðal annars við að hlera íbúðir fólks sem gætu verið „ógn við kommúnismann“. Þessi maður, Gerd Wiesler, fær það verkefni að hlera íbúð hins frjálslynda skálds Georg Dreyman því hann er grunaður um að vera hliðhollur Vestur-Þýskalandi. Ekki líður á löngu áður en að Wiesler fer að sogast inn í líf Dreyman og verða eiginlega hooked á því. Upp frá því skapast mikil togstreita innra með honum, og vel sköpuð og raunveruleg persóna hans fær að njóta sín. Það var eitt af því sem heillaði mig við þessa mynd, hversu raunverulegt tilfinningalíf fólksins var. Draman var rosaleg á köflum, og hún var alltaf átakanleg og aldrei klaufaleg. Þegar ég gekk útaf myndinni leið mér ekki eins og þegar ég gekk inn á hana. Það nota ég stundum sem mælikvarða á góðar myndir.


Pulp Fiction (1994)


Tja, það er varla að maður þurfi að kynna þessa mynd fyrir neinum. Eitt af svölustu myndum allra tíma. Leikstýrt af Tarantino. En ekki hverjum. En þessi mynd er samt nokkuð merkileg á marga vegu. Það sem er lang svalast við hana er það að það er ósköp lítill söguþráður í henni, þannig séð. Myndin er bara blanda af nokkrum smásögum, ef svo mætti að orði komast. Hún er aðallega keyrð á góðum karakterum og það er magnað hvað það virkar vel. Maður fær bara ekki nóg af því að horfa á þessa karaktera gera einhverja vitleysu. Ég held ég geti fullyrt það að Samuel L. Jackson sé imhumanly svalur í þessari mynd og að Bruce Willis sé inhumanly harður. Travolta nær að núlla út hversu hallærislegur hann var í Grease. Eins og einhver notandi á imdb segir: „Masterpiece without a message“. Gæti ekki orðað það betur.


Braveheart (1995)


Um daginn fór ég á Elizabeth: The Golden Age í bíó. Þvílík helvítis drulla og niðurgangur. Flestar svona „era“ myndir sem hafa verið gerðar nýverið eru svooo lélegar að það hálfa væri nóg. Það sama má þó ekki segja um Braveheart, sem er að mínu mati ein allra magnaðasta mynd allra tíma. Mel Gibson leikstýrði henni ásamt því að sjá um aðalhlutverkið. Myndin segir frá sögu William Wallace og baráttu hans og Skota gegn kúgun Breta. Það er ekki nóg með það að það séu flottar leikmyndir og búningar, eins og í Elizabeth, heldur er sagan vel sögð og bardagaatriðin eru fáránlega hörð. Ekkert baby stuff, bara alvöru slagsmál, ekkert tæknibrelluklám. Þetta er ein af þessum myndum sem ég get horft á aftur og aftur. Og ég er ekki mikið fyrir það að horfa á sömu myndirnar. Tónlistin í myndinni er líka stórfengleg. Stefið sem er spilað af og til út myndina lætur engan mann ósnortinn, ekki frekar en myndin sjálf.